Átta pistlar fluttir í Víðsjá, sumarið 1997

I

Það verður æ algengara að talað sé um borgir sem lifandi verur. Borginni er líkt við konu og hún hefur persónuleika og síbreytileika á við hvaða manneskju sem er. Hin einfalda andstæða milli náttúru og menningar, sveitar og borgar er að leysast upp, þar sem borgin verður æ meira lifandi og sveitin vélvæddari. Það er ekki lengur hægt að hugsa sér borgarsamfélagið sem eitthvað grátt og dautt, því að borgin sjálf er orðin að einskonar lifandi líkama. Líkt og líkaminn er borgin afmarkað rými, og líkt og líkaminn þá er hún í stöðugum vexti og tekur örum vaxtarlagsbreytingum. Þetta sést vel á myndum, loftmyndum, götumyndum og hugmyndum, þar sem borgin sýnist vera einskonar skordýr eða útfrymi sem hefur sökkt klónum í landið og teygir anga sína í allar áttir.

Og þessi líkami er ekki bara mennskur heldur vélmennskur, því borgin nærist ekki einungis á mannlífinu heldur drekkur hún líka í sig bensín og rafmagn, og hún þrífst best á skæru ljósi og hávaða. Þar af leiðir að borgin er gangvirki eða sæborg, bæði líkami og vél, lífræn og steingerfð. Hjartað í þessum líkama er næturlífið, líkt og kemur svo fallega fram í mynd Óskars Jónassonar Sódóma Reykjavík. Í þeirri Reykjavíkurmynd framkallast einnig skýrt þessir líffræðilegu eiginleikar borgarinnar. Sódóma sýnir okkur Reykjavík sem afmarkað lífrænt rými þarsem allir þekkjast og allt tengist. Um leið kemur vel fram að það getur aldrei verið um einfalda afmörkun að ræða, borgin er lifandi og líkamalíkingin kemur í veg fyrir skýr landamæri, því eins og allir vita er holdið torvelt að temja. 

Öllu gangvirkinu er stýrt með fjarstýringu kvikmyndaleikstjórans sem fjarstýrir leikurum sínum í eilífum eltingaleik við fjarstýringar út í gegnum alla myndina og um alla borgina. Bílar þjóta fram og til baka um lífæðar borgarinnar að því er virðist stefnulaust, en í raun er þeim öllum fjarstýrt á sama staðinn. Fólk rýkur úr einu hverfi í annað en í Reykjavík eru ótrúlegar vegalengdir þar sem munurinn á hægri og vinstri er bara hugmyndafræðilegur, borgin er svo dreifð að hún er eiginlega meira dreifbýli en þéttbýli og því nær sem systurkaupstaðirnir þrír hjúfra sig, því fjær færast úthverfin. Það er eins og verið sé að bæta upp fyrir eitthvað með því að teygja á vegalengdum.

En eilífar vegalengdir geta aldrei komið í veg fyrir að allir lendi allir alltaf á sama stað. Í skemmtistaðnum Sódómu virkar ölvaður lýðurinn eins og loðin margfætla þar sem menn og mýs sveiflast til við ærandi músík og æða svo einhuga í partý upp í Breiðholt. Og þeir sem halda því fram að Sódóma sýni hvað íslenskt næturlíf er takmarkað, þeim skjátlast, því Sódóma er í raun táknmynd fyrir alla þrjá, afsakið, þá, skemmtistaði sem Reykjavík hefur upp á að bjóða.  Efahyggjumönnum er vinsamlega bent á erlend blaðaskrif og ekki síst nærveru breskra poppstjarna og bandarískra sjónvarpsleikara til staðfestingar á því að næturlíf Reykjavíkur gefur engri stórborg eftir. Í Sódómu birtist Reykjavíkurborg í öllu sínu veldi, raunveruleg stórborg með glæponum og mannránum og bruggi og rokkurum. Bruggararnir voru dálítið klaufalegir og mannræningjarnir kannski ekki beint fagmannlegir, en rokkararnir voru æði. Og svo reyndust þeir allir vera æskuvinir hvort sem var. Vér sannfærðumst fljótt, nei við efuðumst ekki, því við höfðum séð þetta alltsaman áður. Kunnugleg andlit á kunnuglegum slóðum, stórborgarbragur Reykjavíkur í hnotskurn. Sódóma Reykjavík sýnir enga psódó, eða gerfi Reykjavík, það sem hún sýndi svo vel var hvernig Reykavík er í raun og veru, pínulítill og heimóttalegur lókall sem þráir heitar en allt annað að sýnast vera stórborg, eða bara borg. Ef borgir eru lifandi verur þá er Reykjavík barn eða jafnvel lítill klóni þar sem hún skundar óvissum fótum inn í götukortið.  

Í lokasenu Sódómu Reykjavíkur svífur myndavélin inn eftir Reykavík, kemur yfir Breiðholtið og fylgir svo Miklubraut niður í bæ. Með hægum og tignarlegum flugtökum gerir sjónarhornið það að verkum að borgin breyðir fagurlega úr sér, byggingar hækka, og götur lengjast og víkka. Laugarvegurinn virkar eins og New York á góðum degi með glæstum háhýsum og önnum kafinni umferð. Á meðan syngja KK og Björk 'ó borg mín borg'. Það gæti engan grunað að þetta væri ekki nema tíu mínútna akstur og fimmtán mínútur með strætó. Útlendingaherdeildin mín vakti athygli mína á þessu, vakti mig upp af ljúfum draum mikilmennskubrjálæðis hins innfædda Reykvíkings, þau voru hreinlega hugfangin af þessu afreki. Hugsa sér, sögðu þau hrifin, honum tekst að láta Reykjavík líta út fyrir að vera alvöru stórborg.

athugasemd ritstýru: Útlendingaherdeildin var hópur erlendra nemenda í námskeiði við Háskóla Íslands um íslenskar bókmenntir og menningu

II

Ég er alltaf stöðugt spurð til vegar. Í tíma og ótíma er ég stöðvuð af villuráfandi fólki sem biður mig að vísa því veginn. Og ég hef vísifingur á loft og beini þeim inn á réttar brautir. Til þess að auðvelda undanvillingnum og afmarka sjónlínuna frekar ber ég alltaf sérlega langa og vel lakkaða vísifingurnögl, og með þessa nögl að vopni bendi ég á kirkjur og kaffihús, fólk og fugla. Það felst ákveðið guðlegt vald í svona leiðbeiningum um götur borgarinnar, líkt og borgarmeistarar og húsameistarar vita best, þar sem þeir reisa af kappi vegvísa í formi minnismerkja og afmarka þannig borgina. Ólafur Gunnarsson rihöfundur gerði vel skil mikilmennskubrjálæði þeirra sem þrá að setja mark sitt á borgir á þennan hátt. Sigurbjörn arkitekt í Tröllakirkjunni dreymdi ekki bara um Tröllakirkjur heldur þráði hann að reisa glerhvolf yfir Reykjavík. Glerhvolf þetta myndi ekki einungis ná fullkomnu valdi á vaxtarverkjum og óreglulegum útskotum borgarinnar heldur einnig guðlegu valdi gegn veðri og vindum.

Og í ört vaxandi borg þar sem ríkir eilífur vetur er þessháttar miðstýring ekki svo lítill kostur. Vel einangrað hvolf af þessu tagi myndi veita fullkomna yfirsín yfir borgina og borgarana og tryggja stöðugleika Reykjavíkur sem smáborgar. Þó tröllakirkjan sjálf hafi risið reyndist því miður enginn nægilega stórhuga til að láta draum Sigurbjörns um glerborg rætast, en sem einskonar smækkaða uppbót fengu Reykvíkingar glerhvolf yfir heitavatnstanka sína uppi í Öskjuhlíð. Og þó veðrið í borginni almennt hafi ekki beint batnað þá ríkir í þessu hvolfi eilfur sólarlandahiti í trássi við sumaróveðrin. Að auki er þessi smákúpull, sem líkist fremur ljósakrónu en himinhvolfi, frekari staðfesting á hinni smáborgaralegu hugsun sem einkennir Reykjavík, eða er einskonar minnismerki um hana. Sigurbjörn í Tröllakirkjunni dreymdi líka um og reisti, verslunarmiðstöð á Vitatorgi með bogadregnum þakskeggjum svo minnir á máva á flugi.

Því miður eru engir mávar við Kringluna en Ráðhús Reykjavíkur ber fagurlega bogalöguð þakskegg sem minna ekki lítið á þá máva sem sáu um að hreinsa tjörnina af fuglalífi, til að rýma sem best fyrir Borgarstjórn. Ef einhver efaðist um smæð Reykjavíkur þá sannaði stærð Ráðhússins hana endanlega. Sjaldan hefur smáborgarinn hugsað eins stórt og þegar sjálft Ráðhúsið drakk í sig miðbæinn. Líkt og Sigurbjörn á ég mér draum, þann að eina bjarta sumarnótt taki Ráðhúsið sig upp og sigli virðulega inn eftir tjörninni, strandi við hólma og sökkvi eins og Títanik í norðursjó. Kafarar myndu koma hvaðanæva að til að ganga um sali hinnar sokknu glerborgar og Reykjavík yrði ódauðleg sem neðansjávarborg. Verkfræðingurinn frændi minn segir þetta ekki raunhæfan draum en ég sé að hann verður dálítið áhyggjufullur á svipinn.

Yfir borginni trónir svo sjálf Tröllakirkjan og slær brúðarmarsinn á laugardögum með miklum gný, líkt og brúðurin sjálf sé Reykjavík. Slíkir minnisvarðar setja svip sinn á höfuðborgina og hjálpa villuráfandi fólki að finna sér stað á götukortinu. Því minnismerki eru vissulega nauðsynleg fyrirbæri í hverri borg. Vandlega merkt inn á kort og bersýnileg hvaðanæva að eru minnisvarðar tákn stöðugleika og kyrrstöðu. Og kort eru mannskepnunni nauðsynleg til að átta sig á tilverunni. Kort eru okkar leið til að fá mynd af umhverfi okkar og umheimi, með hjálp korta getum við séð fyrir okkur hvernig heimurinn, landið og borgin liggur, áttað okkur á vegalengdum og fundið út leiðina á áfangastað. Þannig eru kort mjög miklvæg tæki í lífsbaráttunni og auðvelda fólki verulega lífið, auk þess að vera svona líka afskaplega skemmtileg tákn. En til þess að kortið nái að þjóna sínum tilgangi verður fólk að leggja sig í framkróka til fylgja því út í ystu æsar. Á kortinu er að finna viðurkenndar og réttar leiðir og leiðbeiningar og sem allar miða að því að marka fólki viðeigandi brautir.

Vei þeim sem rambar út af réttu korti smáborgaranna og fer villur vegar í leit sinni að lífshamingjunni. Þannig er kortið ekki fyr orðið að hjálpartæki en það snýr ranghverfunni út og verður að fangelsi, yfirskipuðum ramma sem skilyrðir borgarana til að hlaupa eftir skýrt afmörkuðum brautum líkt og rottur í völundarhúsi. Minnismerkin varða veginn og svo lengi sem smáborgarinn missir aldrei sjónar af þeim er hann óhultur og öruggur í sínu korti. Á sama hátt eru póstkort stöðluð og auðviðráðanleg. Vörðuð minnismerkjum borgarinnar eru þau kjörin til að staðfesta staðfestuna, hönnuð fyrir smáborgarann til að senda heim og heiman, merkt rauðum púnktum, hér og ég og get ekki annað.

III

Bráðum verður Esjan inni í Reykjavík hugsa ég með mér þar sem ég stend á þaki heimilis míns neðst í Breiðholtinu og horfi yfir heiminn. Fyrir framan mig er Esjan, fyrir neðan mig Reykjavík og fyrir ofan mig breiðir Breiðholtið fagurlega úr sér. Nú stefnir allt í það að stórborgin Reykjavík stækki enn og dreifi sér alla leið upp að Esju. Þetta er borgarfjallið segi ég þá við útlendingaherdeildina mína, einu sinni var það sveit stjúpföður míns. Eitt lítið skref fyrir borgarbúa en risastórt stökk fyrir fjall. Ó dýrðin dýrðin segi ég við lóu sem vappar í túninu heima og gefur mér engan gaum fyr en ég hendi í hana steini. Hún er svo óvön mannaferðum hér að hún kann ekki að styggjast eins og öll alminnileg borgardýr. Enda ekki að furða þar sem hér í Breiðholtinu er allt hægt og hljótt, varla bíll á ferli. Til manna sést náttúrulega aldrei og oft á ég erfitt með að trúa á að það sé til líf í öðrum húsum. Það er helst á björtum laugardagskvöldum þegar grillmökkurinn liggur yfir holtinu að vart verður við fólk og þá í formi óljósra radda sem berast að handan yfir runnana. Aldrei sést til mannaferða, hér eru allir vel faldir bakvið jogginggalla og runnaþykkni.

En svona á þetta einmitt að vera hugsa ég með sjálfri mér og klifra niður af þakinu og legg af stað í strætóleit, Breiðholtið er að þessu leyti dæmigert úthverfi. Hugmyndin að baki úthverfum er sú að forðast ys og þys bæjarlífsins og vernda sig gegn hávaða og mengun og ofbeldi því sem fylgir miðborginni. Úthverfi eru beinlínis hönnuð fyrir útigrill og ófælnar lóur og eiga að vera svefnbæir sem eru sjálfum sér nógir. Úthverfi eru einskonar velferðaræxli á borgum og standa í hugum fólks fyrir allt það sem er leiðinlegt og staðnað og forpokað miðað við hinn lifandi kjarna sem miðborgin er. Í úthverfum býr fólk sem ekki á heima í miðbænum í fleiri en einum skilningi og horfir á sjónvarp allan daginn milli þess sem það skýst út í vídeóleigu á bílnum. Í úthverfinu kristallast allt sem borgarlífið skilgreinir sig gegn, andlegur dauði og daglegur drungi hversdagslífsins.

Þannig eru úthverfi ekki ólík smábæjum segi ég út í loftið þar sem ég stend frammi fyrir Mjóddinni og hóp af gulum hnúfubökum. Í Mjóddinni þekkir verslunarfólkið viðskiptavinina með nafni og enginn þarf að óttast að týnast í fjöldann því að hér er vel fylgst með fólki. Í Mjóddinni og öðrum slíkum verslunarkjörnum er hægt að erinda allt það sem þarf í hinu daglega amstri og í sjálfu sér þarf maður aldrei að fara úr Breiðholtinu. 

Þegar ég kem niður í bæ er þar allt annar heimur. Á Lækjartorginu er lífleg bílaumferð og afgreiðslufólkið í Ríkinu er byrjað að þekkja mig og Laugavegurinn er iðandi af túristum. Skólavörðustígurinn er kannski ekkert sérstaklega sprækur í dag en þegar ég beygi inn í Bergstaðastrætið dettur allt í dúnalogn. Eftir að hafa gengið alein framhjá auðu bakaríi og hárgreiðslustofu fer mér að líða dálítið eins og Palla sem var einn í heiminum og reyni að hugsa upp skýringar. Kannski að Ragnar hafi spáð suðurlandsskjálftanum mikla rétt í þessu meðan ég var uppnumin af geimverum og borgin hafi umsvifalaust verið rýmd. Þetta gæti verið ástæðan fyrir því að það virtust bara vera túristar í bænum, þeir hafa ekki skilið fréttina og jafnvel haldið að þetta væri bíómynd. Og kannski er skjálftinn riðinn yfir, muldra ég og leggst á glugga og allir hafa farist og sjálf er ég bara draugur á framliðinni gangstétt. Þá er Reykjavík eins og Pompei, eilíf draugaborg mörkuð í öskulag sögunnar. Eða kannski, segi ég upphátt, og færist nú öll í aukana, kannski er þetta alls ekki Reykjavík heldur bara módel, einskonar barbíborg eða einfalt pappalíkan sem hefur aldrei hýst lifandi fólk og er bara hér til reynslu. Það gæti skýrt hversvegna miðbær Reykjavíkur er alltaf svona ferlega dauðyflislegur.

Eitthvað hlýtur að ganga hér á seyði því að ekki getur það verið að sjálf miðborgin sé svona nálík Breiðholtinu, úthverfinu. Það getur ekki komið til greina að það sé í sjálfu sér enginn munur á miðbænum og úthverfunum og að Reykjavík sé öll ekkert annað en svefnbær án borgarbrags, draugaborg án suðurlandsskjálfta. Nei, hrópa ég ákveðin þar sem ég stend undir klukkunum í tröllakirkjuturni og horfi yfir dormandi borgina, þetta er alltsaman einn stór misskilningur, þar sem eru miðbæir þar er líf og því til sönnunar sé ég breska poppstjörnu stinga sér inn í sjoppu.

IV

Það er hægt að skilgreina stórborg á marga vegu. Ein leiðin er að skoða götulífið. Líflegt götulíf er talið borgum til tekna, götulíf er til merkis um lífvænleika borgarinnar, menningarlega grósku og einskonar samborgaralegan áhuga og þáttöku í borgarlífinu. Þetta sést best á því að þegar Reykjavík á ammæli, heldur hún upp á það með því að æra alla út á götur og kaffihús miðbæjarins. Hversvegna götulífið er borgum svona mikilvægt er mér ekki með öllu ljóst og kannski tala ég fyrir munn fárra og treð úlfalda gegnum nálarauga. En þrátt fyrir allt ætla ég að halda áfram á sömu braut, sem liggur gegnum miðbæi höfuðborga. Kaffihús eru mikilvæg í þessu sambandi, en þar sitja menningarfrömuðir yfir kaffibollum og teskeiðaglamri og ræða heimsmálin eða lesa menningartímarit eða bara horfa á mannlífið. Til þess að taka sig sem best út þarf helst útikaffihús og gott veður sem sjaldan gefst í Reykjavík, en þar sem sólin skín meðan þetta er skráð, ætla ég ekki að gera veður út af sumaróveðrum þeim sem hér hafa geysað.

Fyrir þá sem kjósa helst að horfa á mannlífið eru götuleikhúsin nauðsynleg, þar sem þau bjóða upp á mannlífið í umskapaðari mynd. Þarna stendur Reykjavíkurborg sig vel og heldur úti götuleikhúsi fullu af ungu líflegu leikhúsfólki sem skýst milli regndropanna í hinum ýmsustu myndum. Sumir sofa í blómabeðum eða hoppa kringum tjörnina í froskagervi, aðrir leika kjarnafjölskylduna og ryksuga það sem eftir er af Lækjartorgi, enn aðrir leika erobíska uppa í leit að einkennisbúningi helgarinnar. Bláir álfar svífa um loftið og tala við blóm og býflugur og súperhetjur sveima um stræti og torg. Allt er þetta afskaplega skrýtið og skemmtilegt og þjónar vel sínu hlutverki að lífga upp á hversdagsleikann og mála Reykjavík í stórborgarlitum, sérstaklega eru bláir álfar og súperhetjur ómissandi í hverri borg. 

Með tilliti til þessara velheppnuðu götusýninga fannst mér því vel við hæfi hjá nýju menningartímariti að stilla sér upp sem götuleikhúsi. Fjölni, tímariti handa Íslendingum, virðist, þrátt fyrir titilinn, aðallega beint að Reykjavík, enda vita allir að höfuðborgir eru menningarmiðstöðvar fyrir sín lönd. Útsölustaðurinn var að sjálfsögðu í hjarta borgarinnar, í Bankastrætinu inn á milli kaffihúsa og útdauðra banka. Í gamla húsnæði Skaparans, hvorki meira né minna, ennþá með medúsuskenknum, sem gaf uppátækinu óneitanlega dálítið grískan blæ. Til þess að hnykkja enn frekar á götuleikhúsímyndinni létu forsprakkarnir mynda sig úti í glugga meðal yfirgefinna gína, og sómdi Hallgrímur Helgason sér sérstaklega vel í þessum félagsskap og féll svo vel í kramið að valla mátti á milli sjá hver var hvað. Umræðufundir fóru síðan fram innanum medúsu og gínur með umferðarniðinn í baksýn, allt sýndi þetta og sannaði hvað Fjölnir varð strax miðlægur í daglegu amstri. 

Enda vakti þetta mikið fjaðrafok í vinahópnum. Ég og vinir mínir bókmenntafræðingarnir og skáldin ræddum þetta fram og til baka og jafnvel æstum okkur soldið, svona eins og góðum menningarvitum sæmir. Það fór hinsvegar dálítið um gvönd og meyna þegar ræða átti málið utan þessa þrönga bókmenntaða hóps,  Ha, sögðu flestir, hú sögðu aðrir og síðan var skundað í bíó;  eitthvað virtist miðlægnin hafa kjarnast á of takmörkuðu svæði. Og þegar nánar er að gáð þá er fátt sem vekur gleði í brjóstum þeirra sem þráðu eitthvað nýtt og ferskt í íslenska menningarumræðu. Bara titillinn vekur upp vandasama pólitík; Fjölnir, í hugum fólks undir þrítugu, er einfaldlega ekki merki um æsandi menningarvakningu, formáli Tómasar á hér illa heima og póstmódernískar fótnótur Gunnars Smára hefðu þurft róttækrar ritstýringar við. Sérstaklega eru neyðarlegar samlíkingarnar milli Fjölnis hins nýja og gamla Fjölnis, þar sem fjöl-yrt er um fjöl-miðlamenningu og Fjölni sem fjöl-miðil. Þetta er undirstrikað enn frekar í fótnótu 45 sem afsakar lélega ritstjórn með ruglingslegri loku um hvarf Atlandshafsins, óþarfleika aðgreiningar, handahófskennd veraldarinnar og böl niðurhólfaðrar og aðgreindrar hugsunar.

Allt er þetta afskaplega pólitiskt rétthugsað, en það breytir ekki því að sundurleysi þetta og handahóf á öllu eru einn stærsti gallinn á þessu riti. Vandmálið er að Fjölnir er einfaldlega ekki nógu spennandi, og það sem er nógu spennandi hefur tilhneigingu til að drukkna innanum langlokur í leit að ritstýringu og leiðindi í þörf fyrir niðurskurð. Það skemmtilegasta var án efs grein Kristjáns B. Jónassonar um dauðann og bóndann og að lifa í fjölmiðlum, en það er ekki að marka, því Kristján er vinur minn og ég því hlutdræg. Þar fyrir utan hreifst ég gífurlega af auglýsingunum og kaupi hérmeð ekkert annað en farfugla í Hagkaupum. Reyndar sýna þessi tvö dæmi best framá tilvistarkreppu Fjölnis; hann er fyrst og fremst til í auglýsingum og fjölmiðlum.  Hinn ágæti útvarpsþáttur Víðsjá gerði sér heilmikinn mat úr Fjölni, og almennt fékk ritið góða auglýsingu í umfjöllun í fjölmiðlum, sem allir þjást ákaflega á sumrin. Þannig lifir Fjölnir í öðrum fjölmiðlum fremur en almenningsvitundinni, líkt og Kristján lýsir í grein sinni um sjónvarpslíf eftir dauðann, og er í sinni gínumynd orðinn ódauðlegur í sýndarheiminum. Og þó hinn daglegi götuleikhúsgestur láti sig málið litlu skipta þá er óhætt að hrósa þeim Fjölnismönnum fyrir að hafa magnað upp þennan líka fína storm í kaffibollunum sínum.

athugasemd ritstýru: Tímaritið Fjölnir varð skammlíft

V

Sumir vilja skilgreina tilveruna út frá efnahagslegum öflum. Fyrir þessa menn snýst heimurinn kringum sólina sem er risastór gullpéningur límdur á stóran péningaseðil sem hvolfist yfir plánetuna jörð. Öflin eru til dæmis þau þegar stjörnuhröp brenna göt í seðilinn fyrir utan vandamálið að gullpéningurinn er svo heitur að það er ekki hægt að gleypa hann. Hér á Íslandi er þetta öllu minna vandamál þarsem sjaldan sést til sólar fyrir þessari líka fínu kælandi rigningu, sem gerir gullið höndlanlegt. Því eru menn hér stöðugt að reisa sér gapandi stórar byggingar í von um að nálgast sólina.

Samkvæmt þessari hugsun eru það péningar sem ráða því hvernig hlutirnir raðast niður, hvort sem það eru rósir í vasa eða vörur í glugga. Eða myndir á vegg og lóðir á blettum. Skilgreiningin á stórborg, til dæmis, er þannig bundin því hversu efnahagslega glæsileg hún er, það er, hversu dýr hún er. Því er það ekki stærð heldur verð sem skiptir máli fyrir stórborg, ekki úrval veitingastaða og gallería heldur fjöldi verslana. Höfuðborgin markast ekki af menningarlegum gæðum og tölu menningartímarita heldur staðsetningu verslunarmiðstöðva og verði á lóðum og húsnæði.

Með tilliti til þessara athugana verð ég, með ugga í brjósti, að tilkynna hér að Reykjavík er alls ekki Reykjavík lengur, heldur er hún Kópavogur. Meðan Reykjavík verður æ dreifbýlli með tilkomu fjalla og firninda þeirra sem tilheyrðu eitt sinn Kjalarnesi en teljast nú höfuðborg, þéttist Kópavogurinn stöðugt í blómlega borg og státar nú af dýrasta lóðaverði á landinu. Það er nýja verslunarmiðstöðin sem skilur milli feigs og ófeigs; Kringlan tvö hringar sig í Smárahvammslandinu eins og ormur á gulli og gerir fasteignasala selafólksins ríka. Sólin skín við kópum og í stað þess að segja úr sveit í borg segja menn nú úr vík í vog. Eða syndum nú fiskarnir segja hornsílin. 

Sögur herma að skrýmsli eitt sem býr í Hvalfjarðargöngunum sé ábyrgt fyrir dreifingu og hnignun höfuðborgarinnar. Hveli þetta eða hvalskrýmsli ku hafa rankað við sér við hávaðasamar framkvæmdir þær sem fara nú fram í Hvalfirðinum og stefnir nú á að soga að sér Reykjavík, því það eigi óuppgerðar sakir við kvikindi nokkurt sem býr í Hallgrímskirkjuturni. Reykjavík stefnir því hraðbyri inn í eilíft myrkur forsögulegra jarðgangna meðan Kópavogur lýsist allur upp og forframast með hjálp sinnar nútímalegu og glæstu Kringlu.

Enn stærri og mikilfenglegri en sú gamla ku þessi flunkunýja verslunarmiðstöð geta séð Kópavogsbúum fjær og nær fyrir öllum þeirra nauðþurftum og hinu og öðru líka. Því nýja Kringlan verður ekki bara verslunarmiðstöð heldur verður hún þjónustumiðstöð líka. Við Breiðhyltingar munum jafnvel njóta góðs af þessum allsgnægtum, og heyrst hefur að Hafnfirðingum verði hleypt inn í hollum um sérstakt hlið. Fólk sogast að þessari fínu Kringlu alveg af sjálfsdáðum, bílarnir beygja af leið til útlanda eða Reykjavíkur og eru gleyptir af umfangsmiklum bílageymslum Kringlunnar og gulir strætisvagnar sveima í kring eins og flugur. Ef geimvera eða guð væri að fylgjast með okkur að ofan myndu þau umsvifalaust halda að Kringla þessi væri einskonar hof eða grafreitur eða jafnvel manntalsskrifstofa, allavega einhver miðstöð mikilvægra athafna.

Og þarna ferðast menn upp og niður rúllustiga og skoðar í glugga og tínir í körfur, og minna ekki lítið á zombíurnar í Degi dauðans. Í þeirri ágætu bandarísku kvikmynd hefur heimurinn eins og við þekkjum hann gerbreyst í vistfræðilegu slysi sem gerir það að verkum að hinir dauðu rísa grænir úr gröfum sínum og þrá það eitt að borða heila úr lifandi mönnum. Þar sem þetta athæfi bætir ekkert úr heiladauða hinna dauðu, er tilvera þeirra hálfmarklaus og þá tekur vaninn við. Í stað þess að ráfa ráðvilltir um flykkjast hinir dauðu í stóra og glæsilega verslunarmiðstöð og ferðast þar dálítið valtir í rúllustigum, horfa áhugalausir í glugga og tína af handahófi ofan í körfur. Þetta er það sem þeir gerðu allt sitt líf og þetta er það sem þeir kunna best. Líf þeirra, eða lifandi dauði, er semsé enn skilgreint útfrá kaupgetu, að lifa er sama og kaupa. Og hvað er svosem annað að gera í Kópavogum þessa heims?

Verslunarmiðstöðvar eru í æ ríkara mæli að taka við miðstöðvarhlutverki miðbæja. Ef höfuðborgir eru menningarmiðstöðvar landa sinna þá eru verslunarmiðstöðvarnar kjarni hverrar borgar. Þangað fara menn til að sýna sig og sjá aðra, án þess að eiga á hættu að bindið fjúki; unglingarnir hanga á handriðunum og börnin klemma sig í rúllustigunum. Eftir að hafa farið í apótekið, erindað í bönkum og pósthúsum, sett kjólföt í hreinsun, náð í skó úr viðgerð og fengið gat í eyrað er hægt að gera árangursrík innkaup og fá sér síðan leit löns á einu kaffihúsanna, skella sér í bíó og þaðan á barinn, allt í einni ferð. Þú þarft aldrei að fara út úr verslunarmiðstöðinni þinni, því miðað við fjölda íbúa bæjarins er líklegt að þú vinnir þar líka. Kannski heldur Kópavogur upp á sitt ammæli með því að æra alla í nýju Kringluna?

Já, þetta er skaddað stuð.

VI

Rigning fór yfir meðallag í Reykjavík í júlí á meðan meginland evrópu fleytti kerlingum milli póla. Ólíkt eðallandinu Atlantis skaut öllu dótinu upp aftur, og heldur nú áfram að taka á móti rigningu. Atlantis er sæborg sem sökk í sæ kringum árið 9560 fyrir kristburð og er af sumum talin liggja undir Íslandi, og vera aðgengileg gegnum Snæfellsjökul. Það voru náttúruhamfarir sem sökktu þessari dularfullu borg, en þar ríkti gríðarlegt ríkidæmi og menningarauðgi og reyndar telja sumir að guðirnir hafi reiðst Atlantisbúum gáfur þeirra og andleg auðlegð og því sökkt öllu heila gillinu. Þessu til stuðnings má benda á sýningu Gunnars Karlssonar í Sjónarhóli. Sérstaklega var Atlantis auðugt af forspáu fólki, og ku andar þess enn tala við spaka menn og koma þannig til skila ýmsum upplýsingum um örlög heimsins. Því er spáð að stöðugum bardaga höfuðskepnanna ljúki með sigri vatnsins. Þessu til sönnunar má benda á sívaxandi vinsældir sjávarmyndmáls ýmiskonar, þarsem fiskar synda um dúka og glös, sæhestar vefja sig utanum skó og menn borga offjár til að mæna á gómsæta hvali busla í fjörðum. Vökvabúskapur plánetunnar er allur úr jafnvægi og ofankoma úr hófi, og til að bæta gráu ofaná svart taka útdauð eldfjöll til við að gjósa og bræða þannig heilu jöklana. Íslandi skolaði næstum burt í slíkum hamförum fyrr á þessu ári, og meðan landið léttist það mikið að það lyftist greinilega nokkuð úr sæ þá jókst vatnsmagnið að sama skapi og sökkti því jafnharðan. 

Það er hægt að leiða líkum að því að Reykjavík sé eins konar sæborg. Miðað við þau votviðri sem hér ganga stöðugt yfir er það allavega vafasamt að tala um Reykjavík sem þurrlendi. Reykjavík liggur að sæ og byggir tilvist sína að stórum hluta af sjávarumferð ýmiskonar, líkt og landið allt. Hinsvegar er ólíklegt að Reykjavík geti talist til sæborga líkt og Atlantis, því þrátt fyrir að hún virðist oft hálfvatnskennd er ómögulegt að rökstyðja það að hér sé nægilegur menningarlegur auður til að nokkur guð geti fyrst við. Því er Reykjavík ekki rétt nema verðandi sæborg, allavega hvað þetta varðar. Ráðhús Reykjavíkur er greinilega byggt bæði með þessa sjávararfleifð og sökkvandi spádóma í huga. Hannað sem einskonar eftirlíking af vatni er ráðhúsið hugsað sem einskonar örk sem getur flotið þegar borgin sekkur. Húsið er fest við botn tjarnarinnar með 13 akkerum sem má öll losa með einu handfangi þegar vatnið er farið að fylla bílageymslurnar. Um þetta leyti verður Reykjavík hvortsemer búin að dreifa sér yfir allt landið og Ráðhúsið því viðeigandi örk. Til að landið týnist ekki alveg eða gleymist var fullkomnu líkani af því komið fyrir í maga ráðhússins, og með hjálp sjávarmyndavéla er hægt að sigla yfir landinu í ráðhúsinu og gera sér mynd af umhverfinu sem liggur niðursokkið í vatninu.  Lagarfljótsormurinn mun rísa úr djúpinu og afhjúpa sjálfan sig sem þann dreka sem er fjórði vættur landsins, en þarsem landið er ekki lengur til er hann frjáls og getur synt til fundar við félaga sinn í Loch Ness. Hinum vættunum þremur er bjargað upp í örkina þar sem þeir verja nú líkanið fína, vel og vandlega. Smátt og smátt breytast íslendingar í fiska, enda lætur það þeim vel eftir að hafa nærst á sjávarafurðum í hundruðir ára. Flestir verða étnir af hefnigjörnum tannhvelum en þeir sem lifa gera Reykjavík að líflegri menningarmiðstöð og stendur hún þá loksins undir nafni sem almennileg sæborg í stíl við Atlantis.

En sæborg er ekki bara neðansjávarborg, orðið sæborg getur líka verið íslenskun á enska orðinu cyborg, stafað c y b o r g.  Sæborg þessi er vélvera, eða lífrænt vélmenni, sem nýtur sívaxandi vinsælda í kvikmyndum jafnt sem nýjastu tækni og vísindum. Sæborgin er samansett úr bæði lífrænu efni og ólífrænu og getur án hvorugs verið. Hún er lokuð heild, sjálfstætt gangvirki sem endurnýjar sjálft sig stöðugt og er bæði mennsk og ómennsk, en alltaf lifandi. Sæborgin stendur á mörkum afþreyingarmenningar og vísinda og er bæði til í fantasíu og veruleika. Tæknilega séð erum við öll þegar sæborgir, háð tækni og tölvum erum við þegar með annan fótinn í því sílíkonhafi sem er sæberspeis, móðurlíf sæborgarinnar. Að mörgu leyti er sæborgin því einskonar borg, lífrænt gangvirki sem er háð öllum pörtum sínum, hvort sem þeir eru borgarbúar, verksmiðjur eða sýningarsalir. Fólk og bílar hvíslast um straumborð borgarinnar og halda gangvirkinu lifandi með vinnu og leik, eða einfaldlega virkni sinni almennt. Þannig er borgin lífvera eða vélvera í sjálfri sér, síkvik og síbreytileg. Og er þá Reykjavík sæborg í þessari skilgreiningu? Til þess þarf hún að vera háð sínum lífrænu þáttum, menningu og listum, lifandi og síbreytileg. Ég er ekki viss.

VII

Menningarvaka Reykjavíkur síðastliðið laugardagskvöld þótti takast með ágætum. Þar rigndi menningu yfir menningarþyrsta borgarbúa sem vökvuðu sig yst sem innst af menningu og úrkomu annarskonar og glöddu hug og hönd á regnblautum strætum Reykjavíkurborgar og létu geysandi óveður sig engu skipta. Fjölbreytnin í fólki var virkilega ánægjuleg sjón, því þarna þustu um barnavagnar jafnt sem fyllibyttur, auk annarra smáborgara. Herlegheitunum lauk svo um miðnættið og kom þá greinilega dálítið Á fólk. Eftir að hafa drukkið í sig menningu heilt kvöld virtist sem ákveðinn órói gerði vart við sig meðal kráargesta. Menn vissu að þetta var alltsaman mjög merkilegt og skemmtilegt og þorstlátt en enginn virtist alminnilega vita hversvegna, né hvað tæki við og greip nú um sig dálítil örvænting í samblandi við umferðarteppur.

Í höfuðborg Íslands, Reykjavík, er haldin menningarnótt einu sinni á ári; hér er ekki menningarsumar, menningarvika eða einu sinni menningarhelgi, nei hér er menningarnótt í eintölu, ekki má trufla borgarbúa lengur frá hugðarefnum sínum. Daginn eftir var svo allt búið, menningarnóttin liðin og borgarbúar gátu snúið sér að því sem þeim lætur best en það er að drekka í sig endalausar íþróttavökur úr sjónvarpinu. Það er heldur ekki eins votviðrasamt og Reykjavíkurnætur, alla vega ekki útvortis. Þeir samviskusömustu líta í bók, þó ekki væri nema til að huga að pillusafninu á meðan enn aðrir snúa sér að vörtúal gæludýrinu sínu. Þessi rafrænu og skjávænu gæludýr eru með eindæmum heppileg og skemmtileg uppfinning í upplýsingaþjóðfélaginu. Til að byrja með þá þarf ekki að óttast skemmdir á húsmunum eða gestum því tölræna gæludýrið býr bara í litlum skjá í litlu tæki sem kemst vel fyrir í litum vasa eða tösku. Gæludýr þetta er í raun einskonar tölvuleikur, nema bara að þetta er rammasta alvara. Sum búa meir að segja í gsm símum eða gemsum þar sem þau sjá um að halda uppi samræðum við eiganda sinn úti á götu. Það eru þá líklegast aðallega lömb. Með því að hafa rafrænt gæludýr í stað loðins má koma í veg fyrir ofnæmi af völdum hára og kattahland í hornum, skjávænu gæludýrin éta ekki hvort annað eins og froskar frænku minnar, þau éta ekki skó og eru mjög létt á fóðrum, því þau borða bara tölrænan mat. Hinsvegar eru þau engin ó-dýr að því leyti að þau þurfa stöðuga umhyggju og athygli, eigandi vörtúals gæludýrs þarf að fylgjast vel með því að það nærist vel og að því sé sýnd nægileg, en ekki of mikil, hlýja og ástúð, líkt og hverju öðru gæludýri. Annars andast litla dýrið á skjánum og veldur draugagangi í símanum.

Ég ætla að gera hér að tillögu minni að Reykjavík verði gerð að vörtúal gæluborg og sett upp í svona lítið tæki með skjá. Þetta myndi hafa víðtæka kosti í för með sér. Það væri til dæmis mjög hentugt að markaðssetja Reykjavík erlendis sem gæluborg, þarsem hún er þegar bæði lítil og kósí og kemst vel fyrir á litlum skjá. Áhugi útlendinga á Reykjavík er gríðarlegur og eykst stöðugt eins og sést best á öllum þeim fimm eða sex erlendu frægðarmennum sem hingað flykkjast. Í stað þess að heimsækja Reykjavík upp á von og óvon um veðurfar og fjölda ljóska væri nú hægt að kaupa borgina í handhægum umbúðum sem gæluborg og hafa hana meðferðis hvert sem er. Fyrir íslendinga erlendis væri þetta líka alveg kjörin lausn á heimþrá, í stað þess að eyða ómældum tíma, fjármunum og ergelsi í flug fram og til baka er nú hægt að hafa Reykjavík hjá sér á náttborðinu og heimsækja hana á skjánum bæði kvölds og morgna. Fólk úti á landi þarf ekki lengur að flytjast til borgarinnar því það getur fengið hana til sín og fyrir borgarbúana sjálfa eru kostirnir einnig óvéfengjanlegir. Með gæluborgina á hendi þarf Reykvíkingurinn ekki lengur að íklæðast regngallanum til þess að taka þátt í borgarbragnum heldur getur hann leikið sér við gæluborgina heima í stofu og þarf því aldrei að fara út úr húsi.

Reykjavík yrði þannig seld í öllum helstu verslunum og póstkröfu, og kemur í tveimur gerðum, nóttu og degi, og fyrir einungis nokkrar aukakrónur er hægt að fá hana útbúna bæði norðurljósum og miðnætursól.

En líkt og skjávænu gæludýrin þarf gæluborgin mikla umhyggju og eftirlit. Það þarf að hugsa stöðugt og vel um hana, bæði til líkama og sálar. Nú dugir ekki lengur að halda úti einni menningarnótt, því gæluborgin þarf stöðugrar athygli við. Það þarf að heimsækja hana reglulega, fara í göngur um hverfið sitt, líta í bæinn, skoða gallerí og söfn og hlýða á tónleika og upplestra, drekka rauðvín á kaffihúsum og kaffi í ráðhúsinu, leggja eyrun við Hallgrímskirkjuklukkum og snúast með Perlunni. Ef aðgát er ekki höfð deyr borgin og verður aldrei annað en draugur á korti.

VIII

Reykjavík hefur verið valin sem ein af níu menningarborgum evrópu árið 2000. Þetta er náttúrulega gríðarlegur heiður fyrir þorp eins og Reykjavík en eitthvað þykir mér málum blandið að yfirskriftin er menning og náttúra. Menning og náttúra hafa hingað til þótt fremur andstæðir pólar og mætti því lesa úr þessu að Reykjavík teljist fremur til náttúru en menningar, enda virðist Ísland tengt órjúfanlegum böndum við náttúruna í hugum útlendinga. Hinsvegar má sjá út úr þessu ákveðna nútímalega hugsun þarsem andstæðan milli menningar og náttúru er tekin til endurskoðunar. Við lifum á tímum póstmódernisma og það er einmitt partur af hinu póstmóderníska ástandi að leysa upp andstæður. Þannig hafa konur og menn bent á að náttúran er tilbúið hugtak og því menningarlegt, meðan menningin skarast óhjákvæmilega við náttúruleg öfl; skörun sem þessi kom til dæmis vel fram í rigningunni á menningarnóttunni þar sem náttúruöflin hreinlega gegnsýrðu alla menninguna, svo ekki sé talað um þann samslátt menningu og náttúru sem kemur fram í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem það grefur um sig á botni tjarnarinnar. Landfræðilegt myndmál er mjög í tísku í póstmódernískri umræðu eða orðræðu og er til dæmis orðið plötusamskeyti, eða misgengi, mjög vinsælt til að lýsa hinu póstmóderníska ástandi sem einkennist þá væntanlega af samskeytum og misgengjum fremur en andstæðum og pólum. Ég kem aftur að þessu með pólana. Ísland er hreinlega skapt af slíkum plötusamskeytum og jarðhræringum og ætti því að geta talist póstmódernískt með eindæmum, eins og kemur fram í yfirskriftinni menning og náttúra. 

Frændur okkar á Grænlandi eru þó komnir enn lengra en við í því að gifta menningu og náttúru eru nú að hugsa um að taka Grænlandsjökul í notkun sem geymslustað fyrir kjarnorkuúrgang. Það er greinilegt að hin póstmóderníska hugsun er ekki komin lengra á veg en það að menn álíta enn að pólarnir séu á öndverðum meiði, til dæmis við miðbikið. Nú þætti mér viðeigandi að við Reykvíkingar yrðum ekki Grænlendingum eftirbátar í þessu og drifum í því verðuga verkefni að geyma hér dálítið af þessum úrgangi öllum. Reykavík er eftir allt öll hin nútímalegasta og vill vera enn framúrstefnulegri og meira með á nótunum í því hátæknivædda þjóðfélagi sem einkennir hið póstmóderníska ástand. Og hvað er betra tákn um framfarir en kjarnorkan?

Tjörnin virðist mér kjörinn geymslustaður enda er hefð fyrir því að ausa í hana hverju því drasli sem ekki finnst annar staður fyrir. Þaðan myndu svo geislavirkar gufur breyðast um borgina og valda stökkbreytngum á mönnum og dýrum. Sumir myndu breytast í snýkla eða linorma eins og Rússinn í Ráðgátum, öðrum myndu vaxa tálkn og þeir steypast í hafið, enn aðrir renna saman við bíla sína og tölvur, ganga fyrir bensíni og rafmagni um leið og þeim vaxa gírstangir og rúðuþurrkur, skjáir og innstungur. Leiðslur og lyklar smjúga inn í líkama þessa fólks og blandast innyflum þeirra og munu bílslys og tölvuvillur ekki eiga sér stað lengur. Endurnar á tjörninni stökkbreytast í tannendur sem tæta í sig alla máva bæjarins og ráðast síðan í hóp að ráðhúsinu og kvakka það niður að viðstöddu lófataki fjórhentra og áttfættra borgarbúa. Styttur bæjarins lifna við og ganga um dálítið stirðlega eins og gólemar og traðka niður allt sem eimir eftir af hefðbundu mannlífi og fólk og hlutir lifna við úr málverkum og bókum og blandast eðlilega hinum líffræðilega hluta borgarbúanna. Þjóðsagnaverur eins og álfar, tröll, nykrar, draugar og miðgarðs og lagarfljótsormar munu varpa hulduhjúpnum og taka virkari þátt í mann - eða ætti ég að segja skrýmsla-lífinu en áður. Stjórnkerfi allt myndi hrynja og stjórnmálamenn stökkbreytast í sérstaklega óviðkunnalega loðna bangsa eða bleikar kanínur sem þorri borgarbúa veiddi og hefði sér til viðurværis.

Reykjavík mætti svo markaðsetja sem þema eða frístundagarð þar sem fólk gæti ýmist flogið yfir í loftþéttum flugvélum eða ekið um í einangruðum ökutækjum. Einnig væri hægt að hugsa sér að hægt væri að leiga einskonar geimfarabúninga eða jafnvel kafarabúninga og ganga þannig um borgina og taka þátt í því auðuga lífi sem einkenna myndi, loksins loksins, Reykjavík.  Sérstaklega myndi næturlífið batna þarsem ylurinn frá kjarnorkuúrganginum héldi Reykjavík í fyrsta sinni innan byggilegra marka hvað hita og veðurfar varðar. 

Þannig myndi Reykjavík blómstra á allan hátt. Fjárhagslegu kostirnir eru augljósir og landið allt myndi njóta góðs af efnahagslegum og menningarlegum gróða og grósku höfuðborgarinnar, sjálf myndi borgin loksins taka á sig alvöru borgarblæ, jafnvel persónuleika sem myndi líta til með borgarbúum á móðurlegan hátt og greiða úr hverkyns flækjum. Smáborgarabragurinn hverfur þegar tvíhöfða margarma borgarinn tekur þátt í alls konar skemmtilegum uppátækjum í borg sem svo sannlega getur kennt sig við bæði menningu og náttúru.

Og með þessu lýk ég þessum upplestrum úr menningarsögu Reykjavíkur, ég þakka þeim sem hlýddu.

úlfhildur dagsdóttir