Mannát, múmínálfar og önnur ævintýri

‚Veiðibjallan er aðsópsmikill fugl‘ sagði afi stundum þegar honum fannst dótturdóttirin fyrirferðamikil og mér dettur þetta oft í hug þegar ég stend í rjúkandi rústum lesefnis af ýmsu tagi sem ég hef tætt í mig án þess að sýna minnstu fyrirhyggju. Mín mesta sorg er að ljúka góðri bók og því set ég sjálfri mér iðulega strangar lesreglur: lesa hægt og njóta – og brýt þær svo um leið og ég kemst í eitthvað safaríkt. Fyrstu daga nýársins fór ég hamförum yfir sex bindi af múmínálfamyndasögum sem ég hafði geymt mér vandlega, til að liggja yfir í rólegheitum og njóta hvers ramma, en gleypti í staðinn í mig á augabragði eins og hungraður úlfur. Árið 1953 var Tove Jansson fengin til að gera myndasögur fyrir fullorðna um múmínálfana sína og birtust þær upphaflega í breska dagblaðinu The London Evening News (en voru fljótlega keyptar af yfir 40 dagblöðum víða um heim). Sögurnar eru í stuttu máli tær dásemd og hafa nú verið endurútgefnar í fallegum bókum hjá kanadíska myndasögufyrirtækinu Drawn & Quarterly.

Afi sagði mér stanslaust sögur og amma var ansi liðtæk sögukona líka. Þegar mamma hafði tíma sagði hún sínar sögur og pabbi kvað yfir mér rímur. Þannig urðu ævintýri af ýmsu tagi mér bókstaflega í blóð borin og á fullorðinsárum er ég enn jafn fíkin í furðuheima hverskyns. Því miður er ekki margt sem fullnægir þessum þorsta mínum nægilega, því ég er kröfuhörð kona. Sem unglingur kynntist ég ævintýraútgáfum Angelu Carter sem skutu djúpum rótum í sálarlífinu en það var svo ekki fyrr en fyrir nokkrum árum þegar ég kynntist bandarísku myndasöguseríunni Fables (2002 -) eftir Bill Willingham að ævintýraþránni var fullnægt á ný. Í Fables hafa ýmsar af helstu persónum ævintýranna neyðst til að flýja til mannheima og hafa komið sér þar nokkuð þægilega fyrir í krafti yfirnáttúrulegra eiginleika sinna. Ævintýrið er fært til nútímans auk þess sem persónur úr ólíkum sögum sameinast hér í einni. Varla þarf að taka fram að uppáhaldspersónan mín er Bigby, einnig þekktur sem stóri grimmi úlfurinn úr ævintýrunum um Rauðhettu, grísina þrjá, og svo framvegis.

Flestir tengja myndasöguna ofurhetjum og í annarri bandarískri myndasögu, Chew (2009 -) eftir John Layman og Rob Guillory, er sagt frá hetju með nokkuð óvenjulega ofurkrafta: yfirnáttúrulegt bragðskyn. Ekki þó til að njóta matar heldur til að segja til um sögu hans og uppruna. Og þar sem hetja vor er lögreglumaður þýðir þetta að hann þarf iðulega að smakka á fórnarlömbum glæpa – og jafnvel morðingjum líka. Þetta er nýjasta uppgötvunin mín í heimi myndasagnanna og lofar afar góðu.

Kynlegar hetjur

Nemendur mínir hafa ekki mikla trú á þessu en staðreyndin er sú að til eru fræðibækur sem eru jafnspennandi og metsölureyfarar. Ég man ekki hvenær ég uppgötvaði fyrst undur fræðanna, en það var sannarlega ekki meðal skólabóka. Men, Women and Chainsaws (1992) eftir miðalda- og íslendingasagnafræðinginn Carol J. Clover er bók sem kveikti með mér elda sem enn brenna, en þar fjallar hún um kvenhetjur í hrollvekjum. Ég tók hreinlega andköf á stundum yfir bók Sadie Plant, Zeroes and Ones: Digital Women and the New Technoculture  (1997), en þar spinnur hún dásamlega fléttu utanum kynhlutverk og kynusla í sögu tölvunnar, fjallar jöfnum höndum um sæberpönk, fyrsta forritarann Ödu Lovelace og hugmyndasmið gervigreindarinnar, hinn samkynhneigða Alan Turing. Kynusli er líka undirliggjandi í bók Roz Kaveney um bandarísku ofurhetjuna, Superheroes: Capes and Crusaders in Comics and Films (2008), en þar sýnir hún og sannar að hin oft fordæmda ofurhetja myndasagnanna er langt því frá að vera eitthvað einfalt eða einhliða fyrirbæri.

Demantar og stál

Það er ekki hægt annað en nefna hér einhverja af bókum Sjóns, en ég er í augnablikinu á kafi í því að skrifa bók um skáldskap hans. Ég hef uppáhald á þeim öllum en sú saga sem greip mig fyrst var fyrsta skáldsaga hans, Stálnótt, framtíðarsaga úr Reykjavíkurborg. Ég þarf að ná mér í nýtt eintak, því það sem ég á er svo útkrotað að ég rétt greini texta skáldsins inni á milli upphrópana, undirstrikana og athugasemda.

Af gefnu tilefni las ég The Diamond Age (1995) eftir Neil Stephenson aftur nýlega og naut þess út í ystu æsar. Það er ekki oft sem ég hef tíma til að endurlesa, sem er synd því allar góðar bækur batna við ítrekaðan lestur. Demantsöldin tilheyrir sæberpönki og lýsir framtíð þarsem tæknin hefur gerbreytt bæði einstaklingum og samfélagi. Viðfangsefni bókarinnar er upplýsingar, nánar tiltekið aðgengi og flæði upplýsinga, sem er mjög aktúelt í dag. Eiga allar upplýsingar að vera alltaf aðgengilegar öllum? Söguhetjan er lítil stúlka sem óvart fær í hendurnar gagnvirka tölvubók sem virkar bæði sem uppalandi, kennari og félagi. Og uppeldið, menntunin og félagsskapurinn felst í því að segja stúlkunni linnulaus ævintýri.

 

úlfhildur dagsdóttir